Eitt það besta sem mig hefur hent

Katrín Ómarsdóttir í leik með Liverpool.
Katrín Ómarsdóttir í leik með Liverpool. Ljósmynd/liverpoolfc.com

Katrín Ómarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu birti fyrir stundu kveðju til leikmanna, starfsliðs og stuðningsmanna Liverpool, en eins og áður hefur komið fram tilkynnti félagið í dag að Katrín og þrír aðrir leikmenn sem voru með útrunna samninga eftir tímabilið væru á förum.

Katrín kveðst þar hafa sest niður með þjálfaranum og niðurstaðan hefði verið sú að það besta fyrir hana í þessari stöðu væri að kveðja Liverpool.

Katrín segir að miklar tilfinningar fylgi því að horfa til áranna þriggja hjá Liverpool, og stuðningurinn sem hún hafi fengið frá starfsliði og leikmönnum sé gríðarmikill.

„Að vera hluti af þessu liði er eitt það besta sem mig hefur hent," segir Katrín og nefnir til sögunnar marga þeirra sem vinna í kringum liðið.

„Ég dýrka karakterinn í þessu liði og mun alltaf muna hann. Þetta er hópur fólks sem er frábært á sínu sviði og auk þess góðar manneskjur. Ég hef eignast hér vini fyrir lífstíð og er afar stolt þegar ég horfi til baka á þá tvo meistaratitla í röð sem við unnum og enginn reiknaði með. Nema við og okkar dyggu stuðningsmenn," segir Katrín.

„En lífið heldur áfram og þið haldið áfram að þróast og vaxa. Ég bíð spennt eftir næstu áskorun og hlakka til að byggja ofan á þá reynslu sem ég öðlaðist hjá Liverpool. Ég vil þakka okkar dyggu stuðningsmönnum, sem hafa alltaf stutt okkur, og munu ávallt eiga stað í mínu hjarta, eins og félagið sjálft. Ég hef verið stuðningsmaður Liverpool frá 5 ára aldri og verð það til æviloka. Takk Liverpool. „You'll never walk alone"" segir Katrín að lokum.

Twitter-færsla Katrínar með kveðjunni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert