Ronaldo myndi aldrei loka á United

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Patrice Evra, fyrrverandi vinstri bakvörður Manchester United, segir að Cristiano Ronaldo, fyrrverandi samherji hans hjá félaginu, myndi aldrei loka á þann möguleika að snúa aftur á Old Trafford.

Evra sagði í viðtali við BBC að Ronaldo hefði sagt honum þetta sjálfur. Ástríða hans í garð Manchester United væri svo mikil að hann gæti aldrei lokað öllum dyrum í þessu sambandi. Ronaldo var í röðum enska félagsins í sex ár og var síðan seldur fyrir 80 milljónir punda, sem þá var heimsmet, til Real Madrid árið 2009.

„Ég hef talað heilmikið við hann um að snúa aftur. Og hann tók undir það, kvaðst elsta þetta félag svo mjög. Ég man eftir því þegar hann talaði við mig þegar við spiluðum við Real Madrid á Old Trafford. Þá sagðist hann ekki hafa sofið alla nóttina á undan og hann hefði meira að segja fengið blóðnasir, spennan og tilfinningarnar hefðu verið svo miklar. Og svo minnist ég þess þegar hann hljóp inn á völlinn og sá viðtökurnar sem hann fékk hjá stuðningsmönnum United. Það var ótrúlegt," sagði Evra, en umræddur leikur var í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2013.

Evra, sem er 34 ára gamall, lék með United frá 2006 til 2014 en gekk síðan til liðs við Juventus á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert