Pochettino hlær að leikjaskipulaginu

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segist ekki nenna að eyða orku í að kvarta yfir leikjaskipulaginu þessa dagana. Tottenham mætti West Ham síðasta sunnudag, leikur í Evrópudeildinni í Aserbadjan í dag og tekur á móti Chelsea í hádeginu á sunnudag.

Svipað átti sér stað fyrr í mánuðinum þegar liðið lék þrjá leiki á sex dögum. „Ég get ekki annað en hlegið að þessu. Þetta er ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem við lendum í þessum aðstæðum,“ sagði Pochettino fyrir leik Tottenham gegn Qarabag í Evrópudeildinni í dag.

„Ef til vill er staðan verri núna vegna þess að flugið tekur tæpa sex klukkutíma. Við þurfum að ákveða eftir leik hvort við eigum að fljúga beint heim eða gista í Aserbadjan nóttina eftir leik. Þetta er erfið ákvörðun því báðir kostir eru slæmir,“ bætti Pochettino við.

Leikur Tottenham og Qarabag hefst klukkan 18.00 og með sigri tryggir Tottenham sér sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert