Reynir Ferguson að hafa áhrif á Ronaldo?

Ronaldo
Ronaldo AFP

Er Sir Alex Ferguson að reyna að sannfæra Cristiano Ronaldo að snúa aftur á Old Trafford til að leika fyrir Manchester United? Því er haldið fram í spænskum fjölmiðlum. 

Spænska íþróttablaðið Marca fjallar um samskipti Fergusons og Ronaldos en þeir hafa samkvæmt blaðinu hist oftar en einu sinni undanfarið. Segir blaðið Ferguson vera að reyna að hafa áhrif á Ronaldo og ákvörðun hans.

Ef Ronaldo skyldi fara frá Real Madrid eins og spænskir fjölmiðlar telja að gæti gerst næsta sumar, þá vill Ferguson frekar sjá sinn gamla lærisvein snúa aftur til Manchester heldur en að fara til Parísar og spila fyrir PSG. Franska liðið hefur þegar gert Real Madrid tilboð. 

Mikið hefur verið rætt og ritað um Ronaldo að undanförnu og margt í þeim fréttaflutningi á ekki við rök að styðjast. Hins vegar má benda á að Marca er þekkt fyrir að vera með góðar og traustar tengingar inn í raðir Real Madrid. Hefur blaðinu sjaldan skjátlast í umfjöllun sinni um Real Madrid. 

Ekki dregur það úr sögusögnunum að Portúgalinn hefur aldrei útilokað þann möguleika að spila aftur fyrir Manchester United og talar iðulega fallega um félagið opinberlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert