Chelsea með Vardy og Dembélé í sigtinu

Moussa Dembélé er með samning við Tottenham til eins og …
Moussa Dembélé er með samning við Tottenham til eins og hálfs árs í viðbót. AFP

José Mourinho hefur áhuga á að krækja í framherjann sjóðheita Jamie Vardy frá Leicester og miðjumanninn Moussa Dembélé sem hefur átt góða leiktíð með Tottenham.

Þetta fullyrðir enska götublaðið Daily Mirror í dag og segir að Chelsea sé reiðubúið að greiða samtals 40 milljónir punda fyrir leikmennina, til að bæta við hóp sinn sem hefur valdið miklum vonbrigðum á leiktíðinni.

Tottenham virtist reiðubúið að láta Dembélé fara í sumar, en hann hefur verið frábær fyrir liðið síðustu vikur. Framtíð hans er hins vegar í óvissu, samkvæmt Mirror, en samningur Dembélés við Tottenham rennur út sumarið 2017. Mourinho getur skoðað miðjumanninn betur á sunnudaginn þegar Chelsea og Tottenham mætast á White Hart Lane.

Vardy hefur skorað í 10 leikjum í röð fyrir Leicester og freistar þess að bæta metið sem hann deilir nú með Ruud van Nistelrooy, þegar Leicester mætir Manchester United á laugardaginn. Hann er einn þeirra sem Chelsea íhugar að fá til að leysa framherjavandræði sín, en Diego Costa hefur valdið vonbrigðum á leiktíðinni og aðeins skorað fjögur mörk. Chelsea-menn munu hrifnir af vinnusemi Vardys en velta því fyrir sér hvort hann hafi það sem til þurfi til að standa sig innan um allar stjörnurnar í Chelsea-liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert