Þarf ekki að hafa áhyggjur

Louis van Gaal getur komið Manchester United á topp ensku …
Louis van Gaal getur komið Manchester United á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigri á Leicester. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur fengið mikla gagnrýni vegna markaleysis liðsins sem þó situr í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Van Gaal sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag, fyrir leik United við Leicester, á morgun. Hann byrjaði á að staðfesta það að þeir Ander Herrera og Phil Jones yrðu ekki með vegna meiðsla.

Hollendingurinn sagðist einnig hafa talið nauðsynlegt að leyfa framherjanum James Wilson að fara að láni til Brighton í B-deildinni, til að hjálpa honum að bæta sig, og benti á að alltaf væri hægt að kalla á hann tilbaka úr láni.

Spurður út í vandræði United með að skora, til að mynda í markalausa jafnteflinu við PSV Eindhoven í Meistaradeildinni í vikunni, og hvort hann væri ekki áhyggjufullur, svaraði van Gaal:

„Ef við værum ekki að skapa okkur færi þá hefði ég áhyggjur, en við erum að gera það og gefum hins vegar fá færi á okkur. Yfirleitt eru úrslitin góð hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert