Wenger ætlar ekki að versla í janúar

Wenger verður seint sakaður um kaupæði.
Wenger verður seint sakaður um kaupæði. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að hans menn ætli ekki að kaupa leikmenn þegar janúarglugginn opnar og hægt verður að kaupa menn á nýjan leik. Þrátt fyrir meiðsli lykilmanna og slæmt 4:0 tap gegn Southampton í gær séu nýir leikmenn ekki væntanlegir.

„Maður fær alltaf þessa spurningu, hvort það eigi að kaupa einhverja. Margir leikmanna okkar eru meiddir og snúa fljótlega aftur á völlinn,“ sagði Wenger þegar hann var spurður hvort einhver ný andlit myndu bætast í leikmannahóp Arsenal í janúar.

„Kaupa, kaupa, kaupa, kaupa er eina lausnin sem fólk virðist sjá,“ bætti Wenger við. Lykilmenn eins og Alexis Sánchez, Santi Cazorla, Francis Coquelin, Jack Wilshere og Danny Welbeck eru allir á sjúkralistanum hjá þeim rauðklæddu sem eru í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Orðrómur hefur verið um að Arsenal sé við það að krækja í Egyptann Mohamed Elneny, sem leikur með Birki Bjarnasyni hjá Basel. Elneny myndi einungis kosta fimm milljónir punda en Wenger var fljótur að neita þeim sögusögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka