Er Klopp að missa þolinmæðina?

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool hefur varað leikmenn sína við að reyna á þolinmæði hans en hann vill að þeir bregðist við eftir dapra frammistöðu í leiknum á móti West Ham um síðustu helgi.

Liverpool spilar í vikunni tvo bikarleiki. Í kvöld mætir liðið Stoke á útivelli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins og föstudaginn etur Liverpool kappi við Exeter í ensku bikarkeppninni.

Klopp var reiður út í sína menn eftir leikinn við West Ham og lét þá heyra það

„Ég var ekki ánægður eftir West Ham leikin því frammistaðan var ekki nægilega góð. Einbeitingin var ekki til saðar og staðan á mönnum var ekki góð í báðum mörkum West Ham. Nú verðum við að bregðast við í leiknum við Stoke. Eins og við spiluðum á móti West Ham geta öll lið unnið okkur. Við höfum farið vel yfir síðasta leik og nú einbeitum við okkur að Stoke,“ segir Klopp.

Eitt af vandamálum Liverpool á tímabilinu hefur verið að skora mörk en liðið hefur aðeins skorað 22 mörk í leikjunum 20 í deildinni en svo fá mörk hefur Liverpool aldrei skorað í efstu deild eftir 20 leiki.

„Móðir allra marka eru færin svo við verðum að fá þau og nýta þau. Við þurfum að vera ákveðnari, gráðugri og agaðri. Við þurfum meira af þessu öllu,“ segir Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert