Liverpool sigraði - meiðslalistinn lengdist

Jordon Ibe kemur Liverpool yfir á 37. mínútu leiksins. Jack …
Jordon Ibe kemur Liverpool yfir á 37. mínútu leiksins. Jack Butland í marki Stoke fær ekkert að gert. AFP

Liverpool stendur vel að vígi í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á Stoke City á útivelli í fyrri viðureign liðanna í kvöld. Seinni leikurinn fer fram á Anfield eftir þrjár vikur.

Jordon Ibe skoraði sigurmark Liverpool á 37. mínútu eftir undirbúning Adam Lallana. Ibe kom inná sem varamaður á 18. mínútu þegar Philippe Coutinho fór af velli, tognaður aftan í læri.

Liverpool varð fyrir öðrum slíkum meiðslum á 32. mínútu þegar Dejan Lovren fór af velli. Jürgen Klopp var þá orðinn uppiskroppa með miðverði og Lucas þurfti að leika í vörninni það sem eftir lifði leiks.

Undir lokin meiddist Kolo Touré líka en harkaði af sér og náði að spila síðustu mínúturnar en Liverpool var þá búið með sínar skiptingar.

Everton og Manchester City eru hin tvö liðin í undanúrslitinum og þau leika sinn fyrri leik á Goodison Park annað kvöld.

Fylgst var með gangi mála á Britannia leikvanginum í beinni textalýsingu hér á mbl.is:

90. Leik lokið - 0:1. Liverpool fer með eins marks forskot á sinn heimavöll.

90. Jonathan Walters fær gott færi til að jafna metin fyrir Stoke en skýtur framhjá marki Liverpool í lok uppbótartímans.

90. Kolo Touré hefur átt stórgóðan leik í vörn Liverpool en nú grípur hann um lærið. Ekki missir Liverpool þriðja leikmanninn í slík meiðsli í kvöld? Hann virðist ætla að harka af sér en er greinilega í vandræðum.

83. Peter Crouch, gamli Liverpool-senterinn, kemur inná fyrir Xherdan Shaqiri hjá Stoke.

79. Christian Benteke kemur inná fyrir Joe Allen hjá Liverpool. Athyglisverð skipting, sóknarmaður fyrir miðjumann.

77. Simon Mignolet markvörður Liverpool þarf að blaka boltanum yfir þverslána eftir að Joselu skaut og boltinn breytti stefnu af varnarmanni.

74. Jack Butland markvörður Stoke er heppinn. Spyrnir frá marki, beint í Firminho sem var á vítateigslínunni, en markvörðurinn nær að grípa boltann sem hefði getað farið yfir hann og í netið!

72. Simon Mignolet markvörður Liverpool fær fyrsta gula spjaldið - fyrir að vera of lengi að taka markspyrnu.

69. Joselu kemur inná fyrir Bojan Krkic hjá Stoke.

68. Jordon Ibe sleppur inn í vítateig Stoke, vinstra megin, eftir laglega sendingu frá Firmino, snýr á varnarmann en skýtur í hliðarnetið nær.

65. James Milner með skot að marki Stoke uppúr aukaspyrnu en heimamenn bjarga nánast við marklínuna.

55. Nú er það Stoke sem hefur byrjað hálfleikinn betur og gert nokkuð harða atlögu að marki Liverpool undanfarnar mínútur. Walters er sóknarmður og kom inná fyrir varnartengiliðinn Cameron. Það sést strax.

53. Glenn Whelan fellur í vítateig Liverpool eftir návígi við Alberto Moreno. Mögulega vítaspyrna?

46. Seinni hálfleikur er hafinn og staðan er 0:1.

46. Jonathan Walters kemur inná fyrir Geoff Cameron hjá Stoke.

45. Hálfleikur og staðan er 0:1 eftir markið frá Jordon Ibe. Verðskulduð forysta Liverpool sem er hinsvegar búið að missa bæði Philippe Coutinho og Dejan Lövren meidda af velli. Simon Mignolet í marki Liverpool varði fast skot frá Glen Johnson eftir hornspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.

39. Besta færi Stoke kemur strax í kjölfarið. Glen Johnson sendir fyrir mark Liverpool frá hægri og hinn austurríski Marko Arnautovic fær frían skalla á markteig en hittir boltann illa og skallar framhjá markinu vinstra megin.

37. MARK - 0:1 - Jordon Ibe. Góð sókn Liverpool upp hægra megin, Adam Lallana sendir fyrir markið, Joe Allen hittir ekki boltann sem berst áfram á Ibe sem afgreiðir hann í netið, rétt utan markteigs.

34. Önnur skipting hjá Liverpool. Það er James Milner sem kemur inná fyrir Dejan Lovren og þá er það væntanlega Lucas sem þarf að leysa stöðu miðverðar við hliðina á Kolo Touré það sem eftir lifir kvölds. Liverpool búið að missa tvo menn af velli og báðir virðast tognaðir aftan í læri.

32. Meira vesen hjá Liverpool. Nú sest miðvörðurinn Dejan Lovren á völlinn og fær aðhlynningu. 

28. Jordon Ibe í ágætu færi í miðjum vítateig Stoke eftir góða sókn Liverpool og sendingu Adams Lallana en skýtur beint á Jack Butland.

25. Leikurinn hefur jafnast og nú fær Stoke sína fyrstu hornspyrnu. Eftir smá bras í vítateignum á Glen Johnson, fyrrum Liverpoolmaður, skot yfir markið hjá sínu gamla félagi.

18. Jordon Ibe kemur inná fyrir Philippe Coutinho hjá Liverpool. Enn lengist meiðslalistinn hjá Klopp.

18. Philippe Coutinho hjá Liverpool virðist hafa tognað aftan í læri. Hann er að fara af velli.

15. Staðan er 0:0, Stoke er komið meira inní leikinn en Liverpool ógnar með hröðum sóknum þegar færi gefast. Meiri ástríða í leik strákanna hans Klopps enn sem komið er.

8. Liverpool sækir áfram og Jack Butland í marki Stoke ver vel hörkuskot frá Adam Lallana af 20 metra færi.

4. Liverpool byrjar mjög vel, hefur sótt linnulaust fyrstu mínúturnar og var að fá sína þriðju hornspyrnu.

1. Leikurinn er hafinn. Í Stoke er 6 stiga hiti, gola og úrkomulaust.

Lið Stoke: Butland, Johnson, Shawcross, Wollscheid, Pieters, Whelan, Cameron, Arnautovic, Afellay, Shaqiri, Bojan.
Varamenn: Haugaard, Joselu, Wilson, Van Ginkel, Adam, Walters, Crouch

Lið Liverpool: Mignolet, Clyne, Touré, Lovren, Moreno, Lucas, Can, Allen, Coutinho, Lallana, Firmino.
Varamenn: Bogdan, Milner, Benteke, Brannagan, Ibe, Smith, Randall.

Liverpool hefur sigraði Stoke í öll fjögur skiptin sem félögin hafa mæst í deildabikarnum. Það hefur greinilega verið góðs viti fyrir Liverpool að sigra Stoke því í þrjú skipti af þessum fjórum hefur félagið að lokum staðið uppi sem sigurvegari í keppninni.

Stærsti sigur Liverpool á Stoke í deildabikarnum er 8:0 árið 2000. Guðjón Þórðarson var þá knattspyrnustjóri Stoke og Robbie Fowler skoraði þrennu í leiknum.

Liverpool er sigursælasta félagið í deildabikarnum og hefur unnið keppnina 8 sinnum. Þá hefur Liverpool leikið oftast allra til úrslita, ellefu sinnum, og komist oftast í undanúrslit, en þar er félagið nú í 16. skipti.

Stoke er hinsvegar í undanúrslitum í fyrsta skipti frá 1972, en þá vann félagið keppnina. Það er eini stóri titillinn í 152 ára sögu Stoke City.

Þetta er önnur heimsókn Liverpool á Britannia á þessu tímabili en liðið vann þar sigur, 1:0, á Stoke í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í ágúst þar sem Philippe Coutinho skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti rétt fyrir leikslok. Liðin mættust á sama stað í lokaumferðinni síðasta vor og þá vann Stoke stórsigur, 6:1.

Bojan Krkic hjá Stoke og Kolo Touré hjá Liverpool eigast …
Bojan Krkic hjá Stoke og Kolo Touré hjá Liverpool eigast við í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert