Sturridge búinn að vera frábær á æfingum

Það styttist í að Sturridge leiki listir sínar á vellinum …
Það styttist í að Sturridge leiki listir sínar á vellinum á nýjan leik. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki pirraður á ástandi Daniel Sturridge en leikmaðurinn hefur verið meiddur meirihlutann af keppnistímabilinu. Sturridge hefur einungis leikið sex leiki á tímabilinu, þar af þrjá síðan Klopp tók við stjórnartaumunum í október.

Sturridge sneri aftur til æfinga í vikunni en verður ekki með Liverpool þegar liðið tekur á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Ýmsir fyrrverandi leikmenn Liverpool eins og Phil Thompson og Dietmar Hamann hafa hvatt Klopp til að kaupa annan sóknarmann í stað Sturridge í sumar.

„Af hverju ætti ég að hugsa um slíkar vangaveltur? Ég hef engan áhuga á þeim. Daniel (Sturridge) hefur verið frábær á æfingum síðustu daga og það er ekkert annað um það að segja,“ sagði Klopp í dag.

Þjóðverjinn staðfesti einnig að Sturridge verði ekki með Liverpool á morgun. „Nei, hann er bara búinn að æfa í tvo daga og í dag er þriðji æfingadagurinn hans. Að spila leik núna væri of mikið,“ sagði Klopp og bætti við að Sturridge, Philippe Coutinho og Divock Origi, sem einnig hafa verið frá vegna meiðsla, ættu að vera klárir í slaginn þegar Liverpool sækir West Ham heim í ensku bikarkeppninni á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert