Hazard biður Mourinho afsökunar

Eden Hazard og Jose Mourinho ræða saman í leik á …
Eden Hazard og Jose Mourinho ræða saman í leik á síðustu leiktíð. AFP

Eden Hazard, leikmaður Chelsea, tjáði sig um það í viðtali við Guardian á dögunum að hann hafi sent Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóra sínum hjá Chelsea skilaboð í kjölfar þess að Portúgalanum var sagt upp störfum hjá Englandsmeisturunum. 

Hazard segir að í skilaboðinu hafi hann beðið Mourinho afsökunar á slæmri frammistöðu sinni í leikjum Chelsea í upphafi tímabilsins. Hazard var valinn leikmaður ársins eftir að hafa leikið afar vel með Chelsea sem varð Englandsmeistari á síðasta keppnistímabili.

Hazard náði hins vegar ekki að fylgja eftir þeirri frammistöðu sinni í upphafi yfirstandandi keppnistímabils og honum þykir leitt að frammistaða sín hafi átt þátt í því að Mourinho hafi misst starf sitt hjá Chelsea. 

„Ég sendi honum skilaboð þar sem að ég sagði að ég myndi sakna þess að leika undir stjórn hans. Svo baðst ég líka afsökunar á slakri frammistöðu minni. Við áttum góða tíma saman og ég óskaði honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Hazard í viðtali við Guardian.

„Ég er með samviskubit þar sem ég náði ekki að fylgja eftir góðri frammistöðu minni á síðasta keppnistímabili. Ég hafði verið sá leikmaður sem réði úrslitum í nokkrum leikjum, en ég lék illa í upphafi leiktíðarinnar og okkur gekk ekki jafn vel í upphafi leiktíðarinnar,,“ sagði Hazard enn fremur.

Chelsea mætir Manchester United í 25. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea á morgun. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert