WBA þurfti vítaspyrnukeppni

Ben Foster býr sig undir að fagna eftir að hafa …
Ben Foster býr sig undir að fagna eftir að hafa varið frá vonsviknum Lee Angol í síðustu umferð vítaspyrnukeppninnar í kvöld. AFP

West Bromwich Albion þurfti vítaspyrnukeppni til að slá C-deildarliðið Peterborough út í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Liðin þurftu að mætast aftur þar sem þau gerðu 2:2 jafntefli á The Hawthorns, heimavelli WBA, á dögunum.

Heimamenn í Peterborough komust yfir í seinni hálfleiknum í kvöld með marki frá Jon Taylor en Darren Fletcher náði að jafna fyrir WBA 20 mínútum fyrir leikslok. 

Ekkert var skorað í framlengingu en í vítakeppninni sigraði WBA 4:3. Úrslitin réðust í fimmtu umferðinni þegar Ben Foster markvörður WBA varði frá Lee Angol en áður hafði einum úr hvoru liði brugðist bogalistin.

Foster hafði áður varið frá Martin Samuelson, 18 ára Norðmanni í liði Peterborough, en Darren Fletcher skaut framhjá marki heimamanna úr sinni spyrnu.

WBA sækir Reading heim í 16-liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert