Verðum að vinna Evrópudeildina

Svekktur.
Svekktur. AFP

Fyrirliði Manchester United, Wayne Rooney, viðurkenndi eftir 2:1-tapið gegn Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag að það verði erfitt fyrir United að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar.

United er í 5. sæti með 41 stig, sex stigum á eftir grönnum sínum í City sem eiga auk þess leik til góða. „Það verður erfitt að ná einu af fjórum efstu sætunum og ná þar með Meistaradeildarsæti,“ sagði svekktur Rooney eftir leikinn í dag.

„Við sköpuðum ekki nógu mörg færi, vorum ekki ákveðnir og vörðumst ekki nógu vel. Úrslitin eru auðvitað mikil vonbrigði. Við verðum hins vegar að horfa fram á veginn,“ sagði Rooney ennfremur og bætti við að liðið gæti náð sæti í Meistaradeildinni með því að vinna Evrópudeildina. Þar mætir United danska liðinu Midtjylland í 32-liða úrslitum.

„Sigur í Evrópudeildinni kemur okkur þangað sem við viljum vera en sú leið er löng og ströng. Við vildum ekki vera í þessari keppni en núna verðum við að reyna að vinna hana og það þarf að byrja á fimmtudaginn,“ sagði Rooney en fyrri leikur United og Midtjylland í 32-liða úrslitunum fer fram á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert