Manchester City deildabikarmeistari

Willy Caballero gat fagnað í kvöld. Hann var hetja Manchester …
Willy Caballero gat fagnað í kvöld. Hann var hetja Manchester City. AFP

Manchester City varð í dag enskur deildabikarmeistari eftir sigur á Liverpool í vítaspyrnukeppni, en leikurinn fór fram á Wembley. Fylgst var með öllu því helsta hér á mbl.is.

Leikurinn í dag var eins og úrslitaleikir eiga að vera, gríðarlega spennandi. Það sást frá fyrstu mínútu að það yrði mikil spenna í honum, en Sergio Aguero átti hættulegasta færi fyrri hálfleiks er hann komst einn í gegn Simon Mignolet. Belgíski markvörðurinn varði frá honum í stöng.

City komst yfir í byrjun síðari hálfleiks með marki frá Fernandinho. Aguero beið þá rólegur fyrir framan teiginn eftir Fernandinho sem kom á ferðinni hægra megin við hann, en hann þrumaði knettinum undir Mignolet í markinu. Mignolet átti að gera betur í markinu, þar sem það var úr þröngu færi.

Næstu mínútur átti City leikinn. Raheem Sterling fékk dauðafæri er David Silva renndi boltanum inn á hann í teignum, en Sterling skaut framhjá. Þá átti Sergio Aguero að fá vítaspyrnu er Alberto Moreno braut á honum, en dómari leiksins dæmdi ekkert.

Philippe Coutinho jafnaði metin á 83. mínútu með góðu marki. Daniel Sturridge átti þá fyrirgjöf sem rataði á Adam Lallana sem skaut í stöngina. Þaðan fór boltinn út á Coutinho sem skoraði örugglega.

Leikurinn þurfti að fara í framlengingu en undir lok fyrri hluta framlenginar fékk Aguero dauðafæri en þá tók Mignolet við sér og varði frábærlega. Divock Origi gat komið Liverpool yfir á 109. mínútu er Milner kom með fína fyrirgjöf á kollinn á honum, en Willy Caballero varði vel.

Ekkert var skorað í framlengingu og þurfti því að fara með leikinn í vítaspyrnukeppni. Þar hafði City betur en Willy Caballero varði þrjár spyrnur. Yaya Toure tryggði bikarinn með síðustu spyrnunni.

Þetta var í fjórða sinn sem City vinnur þennan bikar. Síðast  vann liðið bikarinn tímabilið 2013-2014.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Liverpool 1:3 Manchester City. YAYA TOURE TRYGGIR BIKARINN!! Þetta var öruggt, hann klúðrar ekki víti!

Liverpool 1:2 Manchester City. CABALLERO VER FRÁ LALLANA!! Hann er að verja allt, gjörsamlega allt.

Liverpool 1:2 Manchester City. AGUERO SKORAR ÖRUGGLEGA!! Þetta var alveg út við stöngina. Mignolet ver hann ekki þarna.

Liverpool 1:1 Manchester City. COUTINHO KLÚÐRAR!! Hann hikar í hlaupinu og Caballero les hann örugglega. Virkilega slök spyrna, virkilega slök.

Liverpool 1:1 Manchester City. JESUS NAVAS SKORAR!! Þetta er eins mikið í hornið og mögulegt er. Mignolet fór í rétt horn en nær ekki til boltans.

Liverpool 1:0 Manchester City. CABALLERO VER FRÁ LUCAS!!! Þægileg varsla hjá honum, slappt skot.

Liverpool 1:0 Manchester City. FERNANDINHO Í STÖNG!!! Mignolet giskaði á rétt horn.

Liverpool 1:0 Manchester City. EMRE CAN VIPPAR Á MITT MARKIÐ OG SKORAR!! Stáltaugar!

120. Emre Can er fyrstur á punktinn fyrir Liverpool.

120. Búið að flauta leikinn af. Það er vítaspyrnukeppni!

117. SLAGSMÁL!! Adam Lallana fer í tæklingu á Wilfried Bony, stendur upp úr henni og ætlar svo að berjast við Yaya Toure. Fílabeinsstrendingurinn bregst illa við og fer með takkann í Lallana og skiljanlega var enski landsliðsmaðurinn ekki sáttur. Það sem kemur mér mest á óvart er að Kolo var hvergi sjáanlegur.

112. HVAÐ ER MILNER AÐ SPÁ?? Enski landsliðsmaðurinn ætlar að skalla boltann til baka á Mignolet en Aguero er þar og nær að komast í boltann, en skot hans fer yfir markið. Milner var stálheppinn þarna.

110. Caballero ver aukaspyrnuna frá Sturridge.

110. Coutinho tæklaður rétt fyrir utan teig af Nicolas Otamendi. Argentínski varnarmaðurinn fær gult spjald.

109. ÓTRÚLEGIR HLUTIR AÐ GERAST!!! Liverpool sækir af krafti. Milner kom með fyrirgjöf sem Origi skallaði á markið en Caballero ver stórkostlega.

106. Þetta er komið af stað.

Hálfleikur. Jæja, þá skipta liðin um vallarhelming. Fimmtán mínútur eftir af leiknum, ef það verður ekki skorað á þessum fimmtán mínútum þá er það bara þessi klassíska vítaspyrnukeppni.

105. ÞVÍLÍK VARSLA FRÁ MIGNOLET!!! Aguero kemst einn inn fyrir og hann átti bara eftir að klára færið en Mignolet ver meistaralega frá honum. Belgíski markvörðurinn er kominn í stuð og er svo sannarlega búinn að bæta upp fyrir markið.

103. Origi með skot sem fer himinhátt yfir. Hann fékk gott pláss til þess að athafna sig en skotið var þó ekkert í takt við það.

99. Mikil barátta inni á vellinum núna. Menn eru eitthvað smeykir við að sækja.

91. Framlengingin er komin af stað.

Venjulegum leiktíma lokið. Búið er að flauta til loka síðari hálfleiks. Það verður framlengt á Wembley.

90. Fjórum mínútum bætt við venjulegan leiktíma.

89. YAYA TOURE!!! Hvað er í gangi hérna?? Hornspyrna sem datt í teiginn, þar var Toure, en hann náði ekki að koma honum inn. Þarna skall hurð nærri hælum hjá Liverpool!

87. HENDERSON!!! Nú lætur Henderson vaða, boltinn fer svo af Coutinho en breytir ekki nægilega mikið um stefnu til þess að gera þetta að alvöru færi. Origi var hins vegar nálægt því að koma við boltann, en það tókst þó ekki.

86. FERNANDO NÁLÆGT ÞVÍ!! Boltinn barst inn í teig til Fernando sem var grátlega nálægt því að skora en Mignolet sá við honum.

83. MAAAAAAAAAAARK!!!! Liverpool 1:1 Man. City. PHILIPPE COUTINHO ER AÐ JAFNA METIN!!! Sturridge kom með fyrirgjöfina úr teignum, þar var Adam Lallana sem skaut í stöngina, en boltinn hrökk út á Coutinho sem gat ekki annað en skorað. 

80. STERLING!!! Flottur bolti frá Aguero inn í teiginn. Sterling beið þar en skot hans fór rétt framhjá markinu.

77. MILNER!!! Hann fékk hann vinstra megin í teignum og gat skotið en hann hætti við og reyndi að koma boltanum fyrir. City nær að hreinsa frá. Slök ákvörðun hjá Milner þarna og Sturridge var allt annað en sáttur.

66. MIGNOLET VER!! Aguero kemur sér í góða stöðu og lætur vaða á markið en Mignolet ver laglega.

66. David Silva með aukaspyrnu sem fer rétt yfir markið.

62. AGUERO VILL VÍTI!! Aguero er felldur innan teigs af Alberto Moreno. Þetta var klár vítaspyrna en dómarinn dæmir ekkert. Liverpool stálheppið að fá ekki á sig víti.

60. HVERNIG FÓR STERLING AÐ ÞESSU?? City komst í góða skyndisókn sem endaði með því að Silva lagði boltann inn á Sterling sem átti bara eftir að koma boltanum í netið en hann fer framhjá. Þetta hefði getað gert út um leikinn.

49. MAAAAAAAAARK!!!!! Liverpool 0:1 Man. City. FERNANDINHO ER AÐ SKORA!!! Hvað er Mignolet að gera í markinu? Aguero bíður eftir Fernandinho sem kemur hægra megin við hann, áður en Fernandinho skýtur úr þröngu færi og skorar. Mignolet átti að verja þetta, það er bara þannig.

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur: Þetta er búið að vera nokkuð jafn leikur. Hættulegasta færið var klárlega hjá Sergio Aguero sem lét Simon Mignolet verja frá sér í stöng. Við auglýsum þó eftir mörkum í þennan leik.

45. Coutinho! Hræðilegt skot hjá honum. Hann fékk boltann hægra megin í teignum en skotið var slakt. Hann var þó í góðri stöðu og hélt ég í raun að hann myndi alla vega hitta á markið, en það var þó ekki raunin.

33. COUTINHO!! Aukaspyrna vinstra megin við teiginn sem Milner ákveður að renna út á Coutinho. Hann lét vaða á markið en Kolo Toure var þó nær því að stanga boltann í netið en Coutinho að skora sjálfur. Ágætis tilraun.

26. Firmino með skot sem fer himinhátt yfir. Það er líf og fjör í þessu, alveg eins og við viljum hafa þetta.

25. Mamadou Sakho kemur af velli. Hann er ekki í lagi eftir þetta höfuðhögg áðan og inn kemur Kolo Toure. Sakho er ekki sáttur með þessa skiptingu, en þetta er eitthvað sem Jürgen Klopp varð að gera.

23. AGUEROOOO Í STÖNG!!! Aguero fékk sendinguna inn frá David Silva þarna. Hann leikur á Lucas og Sakho, áður en hann lætur vaða en Mignolet ver í stöng. Þvílík varsla!

16. Ái!! Sakho og Can reka hausinn í hvorn annan. Nú er verið að huga að þeim.

6. Coutinho eitursvalur. Hann fékk boltann við vítateiginn og sendi svo stungusendingu inn í teiginn án þess að horfa. Gekk næstum því upp!

1. MORENO!!! Ágætis sókn hjá Liverpool sem endar hjá Moreno. Hann lætur vaða úr þröngu færi en Caballero heldur þessum bolta. Fjörug byrjun.

1. Leikurinn er kominn af stað.

0. Jæja, þetta fer að hefjast. Leikmenn eru komnir inn á völlinn og nú eru allir að heilsa öllum.

0. Byrjunarliðin má sjá hér fyrir neðan.

Sergio Aguero og Jordan Henderson eigast við í leiknum í …
Sergio Aguero og Jordan Henderson eigast við í leiknum í dag. AFP
Fernandinho fagnar marki sínu í dag.
Fernandinho fagnar marki sínu í dag. AFP
Philippe Coutinho jafnaði metin undir lok leiksins.
Philippe Coutinho jafnaði metin undir lok leiksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert