„Stjóri, kóngurinn kemst ekki á æfingu í dag.“

Kanu með knöttinn í leik með Portsmouth.
Kanu með knöttinn í leik með Portsmouth. LUKE MACGREGOR

Knattspyrnustjórinn Harry Redknapp segir að sóknarmaðurinn Nwankwo Kanu hafi forðast æfingar á mánudögum eins og heitan eldinn. Kanu lék undir stjórn Redknapp hjá Portsmouth frá 2006-2008.

„Það brást ekki að mín biðu skilaboð frá Kanu á mánudagsmorgnum. Stundum hafði ég tilfinningunni að eitthvað væri bogið við þetta. Hann sagði til að mynda: „Stjóri, kóngurinn kemst ekki á æfingu í dag. Mér er illt í maganum,““ sagði Redknapp.

Redknapp var ráðlagt að semja ekki við Kanu, sem var þrítugur þegar hann gekk til liðs við Portsmouth. Hann stóð sig hins vegar vel undir stjórn Redknapps og skoraði meðal annars í fyrsta leik sínum með nýju félagi.

„Ég hringdi í hann og spurði hvað hann hefði haft fyrir stafni síðan hann yfirgaf WBA,“ sagði Redknapp en Kanu yfirgaf WBA í lok tímabils vorið 2006 og var því án félags áður en hann gekk til liðs við Portsmouth um haustið.

„Ég spurði hvort hann væri í nógu góðu formi til að spila með okkur. „Já, ég skokkaði í garðinum fyrir tveimur vikum,“ sagði Kanu. Ég ákvað þá að segja honum að koma og æfa með okkur,“ sagði Redknapp að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert