Ætlar að yfirgefa Liverpool

Martin Skrtel á æfingu hjá Liverpool.
Martin Skrtel á æfingu hjá Liverpool. AFP

Slóvakíski miðvörðurinn Martin Skrtel vill losna frá enska knattspyrnufélaginu Liverpool í sumar og er sagður íhuga tilboð frá Besiktas í Tyrklandi.

Skrtel missti stöðu sína í liði Liverpool í vetur og The Telegraph segir í dag að hann hafi skýrt Jürgen Klopp frá því að hann vilji fara annað.

Haft er eftir umboðsmanni hans að Skrtel sé að skoða tilboð sem hann hafi fengið frá Tyrklandi.

Skrtel, sem er 31 árs gamall, kom til Liverpool frá Zenit Pétursborg í Rússlandi fyrir átta árum og hefur verið einn af vinsælustu leikmönnum liðsins meðal stuðningsmannanna. Hann lenti fyrir aftan Dejan Lovren, Mamadou Sakho og Kolo Touré í baráttunni um sæti í liðinu og nú er þegar ljóst að miðvörðurinn Joel Matip er á leið til félagsins.

Skrtel hefur spilað 79 landsleiki fyrir Slóvakíu og er á leiðinni á EM í Frakklandi með landsliði sínu. Á nýliðnu keppnistímabili spilaði hann 22 leiki af 38 í úrvalsdeildinni og samtals 27 mótsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert