Sturridge meiddur – EM í hættu?

Daniel Sturridge skoraði í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í síðustu viku.
Daniel Sturridge skoraði í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í síðustu viku. AFP

Daniel Sturridge, framherji Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, gat ekki æft með Englandi í gær vegna meiðsla.

Englendingar mæta Áströlum í vináttulandsleik annað kvöld og samkvæmt enskum miðlum er ekki víst að Sturridge verði með í þeim leik, þrátt fyrir að enska knattspyrnusambandið haldi því fram. Leikurinn við Ástralíu er sá síðasti hjá Englendingum áður en Roy Hodgson minnkar hópinn sinn úr 26 í 23 leikmenn sem munu fara á EM. Um kálfameiðsli er að ræða hjá Sturridge.

Meiðsli Sturridge eru sögð vatn á myllu Marcus Rashford, framherjans unga hjá Manchester United, en hann gæti fengið tækifæri í byrjunarliði Englands gegn Ástralíu og er talinn eiga möguleika á að komast til Frakklands á kostnað Sturridge.

Sturridge varð markahæstur hjá Liverpool í vetur með 13 mörk þrátt fyrir að missa af stórum hluta leiktíðarinnar vegna meiðsla. Hann kom til móts við aðra í enska landsliðinu á mánudaginn, eftir að hafa skorað í 3:1-tapi Liverpool í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í síðustu viku. Rashford skoraði 8 mörk í 18 leikjum á sinni fyrstu leiktíð með United og ákvað Hodgson að gefa honum sæti í 26 manna leikmannahópi sínum.

Jamie Vardy missti einnig af æfingu í gær en hann hafði fengið frí vegna eigin brúðkaups.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert