„Mourinho er pirrandi“

José Mourinho pirrar Roy Keane.
José Mourinho pirrar Roy Keane. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United ákvað að ráða portúgalska þjálfarann José Mourinho til félagsins á dögunum eftir að Louis van Gaal fékk að taka poka sinn. Ein helsta goðsögn félagsins er þó ekki hrifin af Mourinho.

Louis van Gaal var látinn fara frá Manchester United á mánudag og þá var ráðningin á Mourinho staðfest nokkrum dögum síðar, ráðning sem reyndist vera eitt verst geymda leyndarmál ensku úrvalsdeildarinnar.

Roy Keane, fyrrum leikmaður United, er ekkert sérstaklega hrifinn af Mourinho en hann segir einfaldlega að hann sé ekki sinn tebolli.

„Mourinho er ekki minn tebolli. Mér fannst hann alltaf pirrandi þegar ég var að þjálfa og við mættumst en það er bara mín skoðun,“ sagði Keane.

„Þegar þú ert í vinnu hjá Manchester United þá snýst allt um að vinna og ferilskrá hans segir okkur það að hann er sigurvegari. Hann var alltaf frábær kostur í starfið þegar það kom í ljós að United færi ekki í Meistaradeildina.“

„Hann var án félags, með góða ferilskrá og virtist passa í starfið, en ég er bara ekki á vagninum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert