Steve Bruce hættur hjá Hull

Steve Bruce er hættur sem knattspyrnustjóri Hull City.
Steve Bruce er hættur sem knattspyrnustjóri Hull City. AFP

Þau tíðindi voru að berast úr herbúðum Hull City sem verður nýliði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á komandi leiktíð að Steve Bruce, knattspyrnustjóri félagsins, sé hættur og muni yfirgefa félagið frá og með deginum í dag. Það er Skysports sem greinir frá þessu. 

Fregnir bárust af því í júní síðastliðnum að Bruce væri að velta framtíð sinni fyrir sér hjá félaginu vegna hugsanlegrar yfirtöku fjárfestingahóps á félaginu, en Assem Allam, eigandi félagsins, hefur verið með Hull City til sölu síðan árið 2014.

Þá kom Bruce til greina sem þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu karla, en hann fór í viðtal hjá enska knattspyrnusambandinu fyrr í þessum mánuði. Flest bendir þó til þess að Sam Allardyce hreppi hnossið.  

Eins og staðan er núna er ástandið ekki glæsilegt hjá Hull City, en þegar tæpar þrjár vikur eru þar til enska úrvalsdeildin hefst eru 13 leikfærir leikmenn í aðalliði félagsins og skipstjórinn horfinn á braut í knattspyrnuliði hafnarbæjarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert