Swansea blandar sér í slaginn um Allen

Joe Allen eftir leik Wales og Portúgals í undanúrslitum á …
Joe Allen eftir leik Wales og Portúgals í undanúrslitum á EM 2016. AFP

Swansea City sem leikur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru að velta því fyrir sér þessa dagana að leggja fram tilboð í velska miðvallarleikmanninn Joe Allen sem er að öllum líkindum á leik frá Liverpool. Það er BBC sem greinir frá þessu.  

Greint var frá því á mbl.is í gær að Stoke City hefði lagt fram 13 milljón punda tilboð í Allen sem Liverpool hafi samþykkt. Allen var einungis átta sinnum í byrjunarliði Liverpool í deildinni á síðustu leiktíð og virðist ekki vera í framtíðarplönum Jürgens Klopp. 

Samtal Huw Jenkins, stjórnarformanns Swansea City, við BBC í dag bendir til þess að félagið ætli að freista þess að fá Allen til liðs við sig á nýjan leik, en hann lék með Swansea City frá frá 2007 til 2012 áður en hann færði sig um set til Liverpool.

„Joe ólst upp hjá okkur og ef það er möguleiki að fá hann aftur heim þá munum við klárlega skoða það og festa kaup á honum. Við munum hafa samband við Liverpool og við sjáum síðan hvað setur í framhaldinu," sagði Huw Jenkins í samtali við BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert