Klopp kemur Henderson til varnar

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom fyrirliða sínum Jordan Henderson til varnar á blaðamannafundi í gær fyrir viðureign liðsins gegn Tottenham í dag.

Henderson hefur verið gagnrýndur af mörgum stuðningsmönnum í upphafi þessa tímabils vegna frammistöðu sinnar en Klopp hefur ekki áhyggjur af forminu hjá honum.

„Ég er alveg viss,” sagði Klopp, spurður hvort hann telji að Henderson geti lagt meiðslatímabilið frá því í fyrra til hliðar.

„Ég sé hann á hverjum degi á æfingu, ef ég væri að efast um hann þá væri hann ekki hér,” sagði Klopp. 

„Þetta er mjög einfalt. Mér líkar við þennan leikmann og hann er mjög mikilvægur fyrir félagið, 100%. Á því leikur enginn vafi,“ sagði Klopp um Henderson en hann fékk fyrirliðaband félagsins síðasta sumar undir stjórn Brendan Rodgers þegar Steven Gerrard sagði skilið við félagið. Mikil meiðsli eftir það hafa þó orðið til þess að stuðningsmenn Liverpool hafa efast um hann.

„Við hverju býst ég frá Jordan? Bætingu. Hann er mjög hæfileikaríkur leikmaður og viðhorf hans er framúrskarandi. Hann vill alltaf leggja hart að sér. Hann er enn þá ungur leikmaður, jafnvel þó að hann hafi spilað marga leiki,“ sagði Klopp.

Jordan Henderson fagnar sigri á Arsenal í fyrstu umferð.
Jordan Henderson fagnar sigri á Arsenal í fyrstu umferð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert