Guardiola fór að sjá Grimaldo

Álex Grimaldo með boltann í leiknum gegn Braga á mánudagskvöld.
Álex Grimaldo með boltann í leiknum gegn Braga á mánudagskvöld. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er sagður hafa gert sér ferð til Portúgals á mánudaginn til að fylgjast með spænska bakverðinum Álex Grimaldo.

Grimaldo lék í 3:1-sigri Benfica á Braga en þessi 21 árs gamli vinstri bakvörður kom til Benfica síðasta vetur frá Barcelona þar sem hann er uppalinn. Grimaldo var 17 ára þegar Guardiola yfirgaf Barcelona en knattspyrnustjórinn er í portúgalska miðlinum MaisFutebol sagður hafa fylgst með Grimaldo síðan.

Samkvæmt MaisFutebol var Guardiola á leiknum á mánudag án þess að sækja sérstaklega um „útsendara“-miða, eins og venjan mun vera að njósnarar annarra knattspyrnufélaga geri. Hann hafi ferðast með einkaflugvél  og viljað halda ferð sinni leyndri.

Grimaldo lék í fjögur ár með B-liði Barcelona og á að baki leiki með yngri landsliðum Spánar, en hann samdi við Benfica til ársins 2021 eftir að portúgalska félagið keypti hann á 1,5 milljón evra síðasta vetur. Hann er sagður hafa klásúlu í samningi sínum sem geri hann falan fyrir heilar 60 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert