Mourinho brjálaður – „mun brjóta á honum andlitið“

Jose Mourinho er harður í horn að taka.
Jose Mourinho er harður í horn að taka. AFP

Út er komin bók um Portúgalann José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, en þar eru höfð eftir honum ansi hörð ummæli í garð Arsene Wenger, kollega hans hjá Arsenal.

Þeir hafa lengi eldað grátt silfur saman og í bókinni er sérstaklega fjallað um það þegar Mourinho sneri aftur í ensku úrvalsdeildina árið 2013 og tók á ný við Chelsea. Wenger gagnrýndi þá kollega sinn meðal annars fyrir að selja miðjumanninn Juan Mata til Manchester United.

„Ég er mjög hissa, að þeir hafi selt frábæran leikmann til keppinauta sinna,“ á Wenger að hafa sagt. Þá á hann að hafa látið hafa eftir sér um Chelsea að liðið gæti ekki unnið því leikmenn væru svo hræddir við að bregðast Mourinho. Það fór ekki vel í Portúgalann.

„Þegar herra Wenger er að gagnrýna Chelsea og Man Utd vegna sölunnar á Mata...Þá mun ég finna hann einn daginn utan fótboltaleikvangs og ég mun brjóta á honum andlitið,“ er haft eftir Mourinho í bókinni en Daily Mail fjallar um málið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert