Sem betur fer var Gylfa ekki breytt í miðvörð

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Það er ekkert launungamál að landsliðsmaðurinn í knattspyrnu Gylfi Þór Sigurðsson er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum sínum hjá enska úrvalsdeildarliðinu Swansea. 

Í dag birtir velski fjölmiðillinn Wales Online skemmtilega umfjöllun um Hafnfirðinginn og tók saman nokkur skemmtileg ummæli sem sem Gylfi Þór sjálfur hefur sagt á tímabilinu sem og önnur eldri. 

Rifjað er upp þegar Steve Coppell fyrrum stjóri Gylfa hjá yngri liðum Reading vildi breyta honum í miðvörð þar sem hann taldi Gylfa ekki hafa hraðann í að vera miðjumaður. Annað hefur komið á daginn enda er Gylfi búinn að skora 27 mörk fyrir Swansea í ensku úrvalsdeildinni og nálgast óðfluga metið hjá félaginu yfir mörk skoruð í efstu deild. Sem betur fer varð Coppel ekki að ósk sinni, hugsa eflaust margir stuðningsmenn Swansea.

Bob Latchford á metið en hann skoraði 32 mörk í efstu deild Englands fyrir Swansea á árunum 1981-1983.

Þar má einnig lesa um ummæli Gylfa um það hvernig hann tók sér Frank Lampard, fyrrverandi miðjumann Chelsea sem var iðinn við kolann í markaskorun á sínum tíma, til fyrirmyndar en hann naut einnig leiðsagnar föður hans, Frank Lampards eldri, hjá Reading.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert