Liverpool horfir til Írans í framherjaleit

Sardar Azmoun fagnar marki með Rostov.
Sardar Azmoun fagnar marki með Rostov. AFP

Forráðamenn Liverpool eru sagðir fylgjast grannt með Sardar Azmoun, framherja Rostov í Rússlandi, til þess að leysa framherjakrísu félagsins. ESPN greinir frá.

Danny Ings verður frá út tímabilið vegna meiðsla og þá verður Sadio Mane fjarri góðu gamni í nokkrar vikur í byrjun næsta árs vegna þátttöku á Afríkumótinu. Jürgen Klopp er þess vegna sagður beina sjónum sínum að hinum 21 árs gamla Azmoun.

Azmoun þessi er fæddur í Íran, en hann kom til Rostov frá öðru rússnesku félagi, Rubin Kazan, í sumar. Sú félagaskipti voru hins vegar umdeild. Hann var fyrst í láni hjá Rostov, sem síðan keypti hann vegna klásúlu þess efnis. Forráðamenn Rubin Kazan sögðu slíka klásúlu hins vegar ekki vera til. Að lokum þurfti dómstóla til að úrskurða að félagaskipti hans væru lögleg.

Azmoun hefur skorað eitt mark í þeim ellefu leikjum sem hann hefur tekið þátt í á tímabilinu en skorað þrjú mörk í átta leikjum á öllum stigum Meistaradeildarinnar það sem af er tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert