Yrði erfitt að spila með öðru liði

Michael Carrick.
Michael Carrick. AFP

Michael Carrick, miðjumaðurinn sterki í liði Manchester United, segir að það yrði erfitt fyrir hann að spila með öðru liði þegar að því kemur að hann yfirgefi Old Trafford.

Carrick, sem er 35 ára gamall og gekk í raðir United frá Tottenham árið 2006, gæri farið frá félaginu til evrópsks liðs í janúar þar sem samningur hans við Manchester-liðið rennur út í júní á næsta ári.

„Það eru margir hlutir sem á eftir að ákveða en það yrði erfitt fyrir mig að spila annars staðar,“ segir Carrick.

José Mourinho, stjóri United, hefur sagt að hann vilji að Carrick taki eitt ár til viðbótar en Carrick hefur spilað 430 leiki með liðinu og hefur svo sannarlega reynst því góður liðsmaður.

Carrick hefur ekki átt fast sæti í liði United á tímabilinu en þegar hann hefur verið í liðinu hefur liðið ekki tapað leik. Hann hefur verið í byrjunarliðinu í átta leikjum og hafa sjö þeirra unnist og jafntefli varð í einum leik.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert