Schweinsteiger gæti haldið kyrru fyrir

Bastian Schweinsteiger í leiknum gegn West Ham í fyrrakvöld.
Bastian Schweinsteiger í leiknum gegn West Ham í fyrrakvöld. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United segir vel koma til greina að þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger haldi kyrru fyrir hjá liðinu og fari hvergi í janúarglugganum.

Schweinsteiger hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester-liðinu en eftir að hafa verið utan hóps og meinað um tíma að æfa með aðalliðinu virðist vera að birta til hjá Þjóðverjanum. Hann fékk tækifæri í fyrsta sinn á leiktíðinni í fyrrakvöld þegar hann lék síðustu mínúturnar í 4:1 sigri United gegn West Ham í ensku deildabikarkeppninni.

„Hann getur hjálpað okkur og hann leggur hart að sér til að fá tækifæri,“ sagði Mourinho við fréttamenn í dag en Manchester United sækir Everton heim á sunnudaginn.

„Í sumar vorum við að reyna að fá eitthvað til gerast hjá Bastian og að hann væri eitthvað annað en hann ákvað að vera um kyrrt við erfiðar kringumstæður,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert