Við sýndum styrk okkar

Willian og Diego Costa fagna öðru marki Chelsea í leiknum …
Willian og Diego Costa fagna öðru marki Chelsea í leiknum í dag. AFP

David Luiz, brasilíski varnarmaðurinn hjá Chelsea, sagði eftir sigurinn gegn Manchester City á Etihad í dag, 3:1, að Lundúnaliðið hefði sýnt styrk sinn og kraft með þessum úrslitum en með þeim náði Chelsea fjögurra stiga forskoti á City og Liverpool.

„Við sýndum kraftinn í liðinu og líka þann karakter að brotna ekki niður við mótlætið. Ég vil tileinka sigurinn öllum sem létust í flugslysinu. Það var erfitt að einbeita sér að leiknum því ég átti vini sem fórust. Við biðjum fyrir fjölskyldum fórnarlambanna,“ sagði Luiz.

Hann var spurður um brotið hjá Sergio Agüero, framherja City, sem tæklaði Luiz hrottalega undir lok leiksins og fékk rauða spjaldið.

„Ég vil ekki tala um svona hluti. Agüero er magnaður leikmaður sem gerir mikið fyrir fótboltann,“ svaraði Luiz við Sky Sports.

Diego Costa, sem skoraði eitt mark fyrir Chelsea og lagði annað upp, sagði að liðið virkaði vel sem ein heild.

„Við erum afar vel skipulagðir og allir vita nákvæmlega sitt hlutverk. Manchester City fékk tækifæri til að skora annað mark en þegar við jöfnuðum höfðum við meira sjálfstraust, og nýttum síðan færin sem buðust. Þetta var frábær leikur,“ sagði Costa við Sky Sports.

Spurður um sjálfan sig og betri framkomu á vellinum en áður svaraði hann: „Ég vil vera innan vallar og ég vil vera yfirvegaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert