Bachmann samdi við Chelsea

Ramona Bachmann rennir sér í Hallberu Guðnýju Gísladóttur í landsleik …
Ramona Bachmann rennir sér í Hallberu Guðnýju Gísladóttur í landsleik á Laugardalsvellinum. mbl.is/Golli

Ramona Bachmann frá Sviss, ein af fremstu knattspyrnukonum Evrópu og mótherji Íslands í Evrópukeppninni í Hollandi næsta sumar, samdi í dag við enska  félagið Chelsea en þangað kemur hún frá Wolfsburg, liði Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í Þýskalandi.

Ramona Bachmann er 25 ára gömul, leikur sem framherji og hefur skorað 39 mörk í 67 landsleikjum fyrir Sviss. Hún var lykilmaður í liði Wolfsburg sem lék til úrslita í Meistaradeild Evrópu síðasta vor og tapaði þá fyrir Lyon í vítaspyrnukeppni. Áður var hún samherji Söru hjá Malmö og Rosengård í Svíþjóð.

Hún lék íslenska landsliðið grátt í viðureign þjóðanna í undankeppni HM í 2:0 sigri Sviss á Laugardalsvellinum haustið 2013 en þá skoraði hún fyrra markið og var í sérflokki á vellinum.

Chelsea varð enskur meistari 2015 en hafnaði í öðru sæti ensku WSL-atvinnudeildarinnar í ár, fimm stigum á eftir Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka