Líklega leikið þrátt fyrir frostið

José Mourinho er ekkert sérstaklega hrifinn af vallaraðstæðum í Úkraínu.
José Mourinho er ekkert sérstaklega hrifinn af vallaraðstæðum í Úkraínu. AFP

Vonir standa til þess að hægt verði að spila leik Zorya og Manchester United í lokaumferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu kl. 18 í kvöld í Úkraínu þrátt fyrir að heimavöllur Zorya sé búinn að vera frosinn.

Fulltrúi frá UEFA skoðaði völlinn í morgun og samkvæmt frétt The Guardian er líklegt að leikurinn fari fram á áætluðum tíma. „Völlurinn er kaldastur á þessum tíma dags og verður bara betri eftir því sem líður á daginn,“ sagði UEFA-fulltrúinn.

José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, leist illa á völlinn þegar hann sá hann fyrir æfingu í gærkvöld, og velti því fyrir sér hvers vegna UEFA leyfði það að spilaður væri mikilvægur leikur í Odessa í desember, þegar vitað væri að svo kalt gæti verið.

United er öruggt áfram í 32-liða úrslit með því að ná í jafntefli í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert