Guardiola farinn að efast um sjálfan sig

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manhester City, telur leikmannahóp félagsins innihalda frábæra leikmenn og velti þeirri spurningu upp í samtali við blaðamenn hvort hann væri nógu góður knattspyrnustjóri fyrir þennan frábæra leikmannahóp. 

Manchester City hóf leiktíðina af miklum krafti og fór með sigur af hólmi í fyrstu 10 mótsleikjum liðsins undir stjórn Guardiola. Síðan þá hefur liðið skort stöðugleika og vandræðagangur í markvörslu og varnarleik liðsins hafa leitt til þess að liðið er 10 stigum frá Chelsea sem trónir á toppi deildarinnar. 

„Það eru frábærir leikmenn í leikmannahópi Manchester City og ég ber mikla virðingu fyrir þeim leikmönnum sem eru í leikmannahópnum. Ég hef enga ástæðu til þess að efast um ágæti leikmanna minna og vandamálið gæti legið á öðrum vettvangi,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi. 

„Fólk veltir því fyrir sér hvort leikmennirnir séu nógu góðir til þess að leika undir minni stjórn, en ég velti á hinn bóginn fyrir mér hvort ég sé nógu góður fyrir þá. Við erum að tala um leikmenn í hæsta gæðaflokki sem hafa sýnt fram á það á undanförnum leiktíðum hvers megnugir þeir eru,“ sagði Guardiola enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert