Hefði átt að þegja

Arsene Wenger er rekinn upp í stúku.
Arsene Wenger er rekinn upp í stúku. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var að sjálfsögðu kátur með 2:1 sigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sigurmarkið kom á sjöundu mínútu í uppbótartíma. 

Shkodran Mustafi kom Arsenal yfir í seinni hálfleik áður en Granit Xhaka fékk að líta rauða spjaldið. Leikmenn Burnley héldu svo eflaust að þeir hefðu tryggt sér eitt stig er Andre Gray jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Dramatíkin var hins vegar ekki búin því Arsenal fékk einnig víti í uppbótartíma. Alexis Sanchez skoraði úr henni og tryggði Arsenal sigurinn. 

Wenger var sáttur við sigurinn en sagði leikinn hafa verið erfiðan. 

„Okkur tókst að vinna en þetta var virkilega erfitt. Við náum ekki að skora annað markið og við vorum manni færri ásamt því að þeir spiluðu vel. Þetta tókst að lokum og við fengum stigin sem við vildum.“ 

„Burnley er mjög skipulagt lið sem gerir einfalda en árangursríka hluti. Við unnum á síðustu sekúndunni á útivelli á móti þeim og svo aftur núna. Við erum að spila ótrúlega erfiða leiki í hverri viku.“ 

Wenger var rekinn upp í stúku fyrir mótmæli sín við vítaspyrnunni sem Burnley fékk.

„Mér sýndist þetta ekki vera víti en ég hefði átt að þegja og biðjast afsökunar, þó ég hafi verið pirraður,“ sagði Frakkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert