Komst ekki á æfingu því hliðin voru biluð

Steve Bruce er ekki sáttur við Ross McCormack.
Steve Bruce er ekki sáttur við Ross McCormack. AFP

Steve Bruce, knattspyrnustjóri enska knattspyrnufélagsins Aston Villa, er ekki sérstaklega ánægður með Ross McCormack, skoskan framherja liðsins. 

Ástæðan er sú að hann hefur verið að missa af æfingum undanfarið og komið með furðulegar afsakanir fyrir því. 

Nú síðast missti hann af æfingu vegna þess að hliðin á húsinu hans voru biluð og hann gat ekki opnað þau og var hann því fastur heima hjá sér. 

Bruce hefur nú neitað að nota McCormack þangað til hugarfarið hans lagast en hann kom til Villa á 12 milljónir punda frá Fulham í sumar. McCormack hefur ekki skorað síðan á öðrum degi jóla og nú er hann kominn í skammarkrókinn hjá Villa. 

„Síðasta afsökunin hans var að hliðin á húsinu hans voru biluð og hann gat ekki hoppað yfir þau þar sem þau eru ansi há. Ég er ekki vanur því að tala svona um leikmenn í pressunni en nú er komið nóg,“ sagði Bruce og má nú hver dæma fyrir sig um þá afsökun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert