United á góðar minningar fyrir stórleikinn

Pep Guardiola og José Mourinho mætast í kvöld.
Pep Guardiola og José Mourinho mætast í kvöld. AFP

Einn stærsti leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu fer fram í kvöld þegar Manchester-liðin United og City leiða saman hesta sína á Etihad-leikvanginum.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember árið 1994 sem grannarnir mætast í deildinni á fimmtudegi, en sá leikur var mjög eftirminnilegur. Í það minnsta fyrir stuðningsmenn þeirra rauðklæddu, því United vann leikinn 5:0 á Old Trafford.

Úkraínumaðurinn Andrei Kanchelskis skoraði þrennu fyrir United í leiknum og þeir Eric Cantona og Mark Hughes bættu við sitt hvoru markinu. United hafnaði í öðru sæti um vorið, stigi á eftir meisturum Blackburn, en City varð í 17. sæti fjórum stigum frá falli.

Fyrir leik liðanna í kvöld er City með 64 stig í fjórða sætinu og United er í því fimmta með stigi minna. Leikurinn hefst klukkan 19 og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert