Ellefu sekúndna blaðamannafundur Mourinho

José Mourinho fékk engar spurningar og var því fljótur að …
José Mourinho fékk engar spurningar og var því fljótur að kveðja. AFP

José Mourinho svaraði ekki einni einustu spurningu á blaðamannafundi eftir síðasta leik Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð; 2:0-sigurinn á Crystal Palace á Old Trafford.

Blaðamannafundurinn stóð aðeins yfir í 11 sekúndur, samkvæmt frétt Sky Sports. Mourinho fékk nefnilega engar spurningar.

Margir blaðamanna voru enn í sætum sínum á leikvanginum að fylgjast með leikmönnum ganga svokallaðan heiðurshring, þegar fundurinn hófst. Fjölmiðlafulltrúi United hóf fundinn á því að óska eftir spurningum, ítrekaði svo ósk sína, en þegar engin spurning barst sagði Mourinho: „Gott mál, verið þið sæl.“

United endaði í 6. sæti deildarinnar, eins og ljóst var fyrir leikinn í dag. Liðið á einn leik eftir á tímabilinu en það er úrslitaleikur Evrópudeildarinnar, gegn Ajax á miðvikudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert