Llorente gerir það sama og Gylfi

Fernando Llorente fagnar sigurmarki sínu í gær.
Fernando Llorente fagnar sigurmarki sínu í gær. AFP

Spænski framherjinn Fernando Llorente í liði Swansea hefur fylgt í fótspor Gylfa Þórs Sigurðssonar með því að lýsa yfir ánægju með veru sína hjá velska liðinu.

„Ég er með samning við Swansea og ég er mjög ánægður hjá félaginu,“ sagði Llorente eftir sigur sinna manna gegn WBA í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í gær.

Llorente skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok og Spánverjinn lagði svo sannarlega sitt af mörkum að Swansea tókst að halda sæti sínu í deildinni. Hann skoraði 14 mörk í deildinni og mörg þeirra eftir sendingar frá Gylfa en þeir mynduðu einn hættulegasta dúettinn í deildinni á tímabilinu.

Rétt eins og Gylfi hafa önnur lið í ensku úrvalsdeildinni sýnt áhuga á að fá spænska risann til liðs við sig en Gylfi lét hafa eftir sér í viðtali við BBC í síðustu viku en hann væri ekki að reyna að fara frá Swansea né vildi það.

„Ég er mjög ánægður með mitt fyrsta tímabil í deildinni. Þetta er mögnuð deild, með frábærum leikvöngum og stuðningsmönnum. Þetta var erfitt tímabil fyrir okkur en við vorum magnaðir á lokasprettinum,“ sagði Llorente.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert