„Þetta er synd“

Diego Costa bítur í verðlaunapeninginn eftir að Chelsea tók á …
Diego Costa bítur í verðlaunapeninginn eftir að Chelsea tók á móti sigurlaunum sínum í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Diego Costa, framherji Chelsea, segir að knattspyrnustjórinn Antonio Conte hafi sagt sér að hann eigi ekki framtíð hjá félaginu.

„Ég fékk lítil einföld smáskilaboð á símann minn frá Conte þar sem hann sagðist ekki reikna með mér á næstu leiktíð,“ sagði Costa við fréttamenn eftir 2:2 jafntefli Spánverja gegn Kólumbíumönnum í vináttuleik í kvöld.

„Þetta er af því að ég stóð mig illa á síðustu leiktíð. Þetta er synd. Ég hef framsent skilaboðin til manna sem stýra félaginu og það er þeirra að taka ákvörðun en það er skýrt að stjórinn reiknar ekki með mér og vill ekki hafa mig. Ég er kominn á leikmannamarkaðinn svo ég er að leita að liði. Ef þjálfarinn vill ekki hafa þig þá verður þú að fara,“ segir Costa.

Costa, sem er 28 ára gamall, var orðaður í burtu frá Chelsea á nýliðinni leiktíð og var jafnvel búist við því að hann færi til félags í Kína í janúarglugganum en ekkert varð úr því og Costa lauk leiktíðinni með því að skora 22 mörk í öllum keppnum með liði Chelsea sem hampaði Englandsmeistaratitlinum.

Costa kom til Chelsea frá Atlético Madrid árið 2014 og hefur skorað 52 mörk í 87 deildarleikjum með Lundúnaliðinu.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert