Koeman fámáll um Gylfa

Ronald Koeman er knattspyrnustjóri Everton.
Ronald Koeman er knattspyrnustjóri Everton. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, gaf ekki mikið upp um stöðu mála varðandi möguleg kaup félagsins á Gylfa Þór Sigurðssyni á fréttamannafundi sem var að ljúka á Goodison Park.

Þar var viðureign Everton og Ruzomberok frá Slóvakíu í Evrópudeildinni annað kvöld aðalmálið á dagskrá en að vonum var Koeman spurður um Gylfa Þór Sigurðsson og hvort hann hefði enn áhuga á að kaupa hann frá Swansea City.

„Auðvitað höfum við áhuga á þessum leikmanni," var stutt og laggott svar hans varðandi Gylfa.

„Ég veit það ekki,“ svaraði Koeman, spurður hvort Everton myndi gera nýtt tilboð í Íslendinginn.

Hinsvegar kom fram hjá Koeman að miðjumaðurinn Ross Barkley væri á förum frá Everton, hann hefði lýst vilja sínum til að takast á við nýja áskorun. 

Koeman staðfesti jafnframt að Everton vildi fá þrjá nýja leikmenn til viðbótar fyrir tímabilið, varnarmann, miðjumann og sóknarmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert