Óvæntur sigur Palace á meisturunum - Jóhann lagði upp

Leikmenn Crystal Palace fagna sigrinum.
Leikmenn Crystal Palace fagna sigrinum. AFP

Fyrsti sigur Crystal Palace á leiktíðinni var sannarlega óvæntur en liðið lagði Englandsmeistara Chelsea að velli, 2:1, og skoraði um leið sín fyrstu mörk í deildinni þetta tímabilið. Fimm leikir fóru fram í deildinni á sama tíma og í öðrum leikjum lagði Jóhann Berg m.a. upp jöfnunarmark Burnley gegn West Ham og  Manchester City vann enn einn stórsigurinn.

Roy Hodgson, stjóri Crystal Palace, hefur greinilega nýtt landsleikjahléið vel en hans menn voru án stiga með markatöluna 0:17 fyrir leikinn í dag. Frakkinn Yohan Cabaye skoraði fyrsta mark liðsins á leiktíðinni á 11. mínútu en Chelsea-menn voru fljótir að jafna. Var þar að verki Tiemoue Bakayoko með skalla eftir hornspyrnu. Wilfried Saha kom Palace yfir á ný á 45. mínútu og fyrsti sigur Palace staðreynd.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn sem varamaður í hálfleik er Burnley gerði 1:1 jafntefli við West Ham. Hamrarnir voru 1:0 yfir í hálfleik en Jóhann Berg lagði upp mark Burnley fimm mínútum fyrir leikslok en það var Chris Wood sem skoraði markið. Burnley hefur 13 stig í 6. sæti.

Liðsmenn Pep Guardiola héldu áfram að rífa netmöskvana í ensku úrvalsdeildinni og unnu þriðja liðið á leiktíðinni með fimm mörkum eða meira en lokatölur gegn Stoke urðu 7:2.

Gabriel Jesus skoraði tvö mörk fyrir City en þeir Raheem Sterling, David Silva, Fernandinho, Leroy Sané og Bernardo Silva, skoruðu allir eitt mark. Fyrir Stoke skoraði Mame Biram Diouf og Kyle Walker, City, gerði sjálfsmark.

Manchester City er á toppnum með 22 stig og markatöluna 29:4.

Christian Eriksen skoraði sigurmark Tottenham sem vann 1:0 sigur á Bournemouth og þá vann Swansea 2:0 sigur á Huddersfield þar sem Tammy Abraham skoraði bæði mörkin. Tottenha hefur 17 stig í 3. sæti.

Cr. Palace 2:1 Chelsea opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert