Coutinho gæti spilað

Philippe Coutinho
Philippe Coutinho AFP

Ekki er loku fyrir það skotið að Philippe Coutinho verði klár í slaginn hjá Liverpool á morgun sem tekur á móti Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni.

Á blaðamannafundi í dag sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Livepool, það koma í ljós eftir æfingu liðsins í dag hvort Brasilíumaðurinn knái verður til í slaginn.

Smávægileg meiðsli hrjá Coutinho og héldu honum frá æfingu í gær. „Þetta er ekki orðið ljóst. Í síðustu viku var hann í vandræðum með bakið á sér fyrir leikinn gegn Tottenham. Hann fékk þá meðferð hjá sjúkrateyminu og var klár fyrir leikinn,“ sagði Klopp.

Engin önnur slæm tíðindi eru af leikmannahópi Liverpool að sögn Þjóðverjans sem segir að endurhæfingin hjá Adam Lallana, Sadio Mane og Nathaniel Clyne gangi vel en að enginn þeirra muni spila næstu þrjá leiki liðsins.

Meira en mánuður er síðan Liverpool vann síðast deildarleik. Liðið vann Leicester 23. september síðastliðinn en hefur síðan gert jafntefli við Newcastle og Manchester United og fékk 4:1-skell gegn Tottenham í síðustu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert