Tvöfaldur Evrópumeistari látinn

Larry Lloyd er hann lék með Nottingham Forest.
Larry Lloyd er hann lék með Nottingham Forest. Ljósmynd/nottinghamforest.co.uk

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Larry Lloyd, sem lék lengi vel með Liverpool og Nottingham Forest, er látinn 75 ára að aldri.

Lloyd var varnarmaður sem lék með Liverpool frá 1969 til 1974, alls 218 leiki í öllum keppnum, og varð einu sinni Englandsmeistari ásamt því að vinna UEFA-bikarinn, sem nú heitir Evrópudeildin.

Hann lék með Coventry City frá 1974 til 1976 þegar Lloyd skipti yfir til Nottingham Forest, þar sem hann lék einnig um fimm ára skeið, alls 214 leiki.

Sigursæll hjá Forest

Hjá Forest var Lloyd yfirmáta sigursæll enda var hann lykilmaður er liðið vann Evrópubikarinn, nú Meistaradeild Evrópu, tvö ár í röð, 1979 og 1980.

Lloyd varð einnig Englandsmeistari með Forest árið 1978 auk þess að vinna enska deildabikarinn sama ár og sömuleiðis árið eftir.

Hjá Liverpool lék hann undir stjórn goðsagnarinnar Bill Shankley og hjá Forest undir stjórn goðsagnarinnar Brian Clough.

Lloyd lék þá fjóra A-landsleiki fyrir England.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert