Chelsea Englandsmeistari á markatölu

Leikmenn Chelsea að fagna marki í dag.
Leikmenn Chelsea að fagna marki í dag. AFP/Darren Staples

Chelsea er Englandsmeistari kvenna í fótbolta tímabilið 2023/24 eftir 6:0 stórsigur á Manchester United í dag.

Chelsea endaði með 55 stig, jafn mörg og Manchester City en með betri markatölu, 53 gegn 46 sem City er með. City vann lokaleik liðsins, 2:1 gegn Aston Villa en það dugði ekki til.

Fran Kirby kom inn á á 72. mínútu og skoraði sjötta mark Chelsea en þetta var hennar síðasti leikur með liðinu. Emma Hayes, knattspyrnustjóri liðsins kveður einnig eftir 12 ár hjá liðinu.

Þetta er fimmta árið í röð sem Chelsea vinnur titilinn.

Fran Kirby að fagna markinu hennar í dag.
Fran Kirby að fagna markinu hennar í dag. AFP/Darren Staples

Dagný komin aftur í hóp

Dagný Brynjarsdóttir, fyrrum fyrirliði West Ham, mætti aftur í leikmannahóp liðsins eftir árs fjarveru en kom þó ekki inn á. Hún eignaðist sitt annað barn í febrúar á þessu ári.

West Ham tapaði leiknum 3:1 fyrir Tottenham og endaði í 11. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert