Massa vinnur jómfrúarsigur sinn í formúlu-1

Massa fagnar sigri á verðlaunapallinum í Istanbúl.
Massa fagnar sigri á verðlaunapallinum í Istanbúl. ap

Felipe Massa á Ferrari var í þessu að vinna tyrkneska kappaksturinn. Er það fyrsti mótssigur hans í formúlu-1 en hann hóf keppni af sínum fyrsta ráspól á ferlinum og hafði forystu alla leið. Fernando Alonso á Renault varð annar, vann sig fram úr Michael Schumacher á Ferrari og tókst að verjast ákafri sókn Schumacher á lokahringjunum.

Massa ók með öllu óaðfinnanlega frá upphafi til enda og gerði engin mistök í þessu 67. móti sínu. Það gerði Alonso heldur ekki þótt hann væri undir mikilli pressu frá Schumacher síðustu 10 hringi kappakstursins eða svo. Fyrir bragðið eykur hann forystu sína á Ferrariþórinn í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í 12 stig, er með 108 stig gegn 96.

Alonso komst fram fyrir Schumacher er öryggisbíll var sendur í brautina eftir 14 hringi er Toro Rosso-bíll Vitantonio Liuzzi nam staðar á brautinni í fyrstu beygju hringsins. Skutust þá margir ökuþórar inn að bílskúrum til að skipta um dekk og taka bensín.

Schumacher var á því stigi um 7-8 sekúndum á undan Alonso en varð að bíða meðan vélvirkjar Ferrari þjónustuðu Massa. Tókst Renaultsveitinni að afgreiða Alonso örlitlu á undan Schumacher svo hann komst fram úr á leið út úr stoppinu.

Fljótlega eftir stoppið urðu Schumacher á mistök í hinni erfiðu áttundu beygju, lenti út úr brautinni og tapaði við það nokkrum sekúndum á Alonso. Þótt ekkert dragi það úr glæsilegum sigri Massa var einvígi Alonso og Schumacher, fyrst í keppni um annað sætið í ræsingunni og inn að fyrstu beygju og svo seinni rimma þeirra undir lokin til að lífga mjög upp á kappaksturinn.

Þar var um hreinan kappakstur að ræða og spennandi rimmu alveg að marklínunni, en yfir hana var Alonso aðeins um hálfri bíllengd á undan Schumacher. Að öðru leyti átti mikil stöðubarátta sér stað mótið út í gegn og sannaðist að brautin er sniðin til framúraksturs.

Þar sem Giancarlo Fisichella varð aðeins í sjötta sæti vegna samstuðs - hrapaði niður á við vegna samstuðs á fyrsta hring sem kostaði hann trjónuna - hlaut Ferrari 16 stig gegn 11 stigum Renault í keppni bílsmiða. Minnkaði því forskot franska liðsins niður í tvö stig, 160:158.

Kimi Räikkönen á McLaren var eitt af fórnarlömbum kraðaks sem myndaðist við samstuð Fisichella og Nick Heidfeld á BMW. Sagði hann einhvern hafa rekist aftan á sig með þeim afleiðingum að afturdekk sprakk. Á leið inn að bílskúr flaug hann út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg. Ekki sá endir sem hann vonaðist eftir í 100. móti sínu.

Gríðarlegur hiti var í Istanbúl, lofthiti um 35°C er kappaksturinn fór fram og malbikið mældist 52°C heitt.

Úrslitin í kappakstrinum í Istanbúl

Staðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Massa vinnur jómfrúarsigur í Istanbúl.
Massa vinnur jómfrúarsigur í Istanbúl. ap
Schumacher og Alonso í forgrunni en fyrir aftan rekast Fisichella …
Schumacher og Alonso í forgrunni en fyrir aftan rekast Fisichella og Heidfeld saman í fyrstu beygju. ap
Räikkönen féll úr leik á fyrsta hring, fékk bíl aftan …
Räikkönen féll úr leik á fyrsta hring, fékk bíl aftan á sig í fyrstu beygju svo dekk sprakk. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert