Räikkönen í herklæðum Ferrari

Räikkönen mættur til leiks í skíðabænum Madonna.
Räikkönen mættur til leiks í skíðabænum Madonna. ap

Kimi Räikkönen birtist í fyrsta sinn opinberlega í gær í hinum rauðu herklæðum Ferrariliðsins, hinna nýju vinnuveitenda hans. Mætti hann þá til leiks á skíðaviku Ferrari í alpabænum Madonna di Campiglio.

Frá árinu 2001 hefur Räikkönen ýmist verið í bláum galla Sauber eða silfurklæðum McLaren en verður héðan í frá í rauðum skrúða. Flaug hann með þyrlu til Madonna frá heimili sínu í Sviss.

Er hann hafði undið sér úr þyrlunni stillti Räikkönen sér upp fyrir ljósmyndara við sportlegan bíl af gerðinni Fiat Brava.

Ferrari hefur um árabil farið til fjalla í byrjun árs og kallað þar fjölmiðla til liðs við sig. Orðrómur er á kreiki þess efnis að nýr aðstoðarmaður liðsstjórans Jean Todt, Michael Schumacher, muni birtast í brekkum Madonna áður en vikan er úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert