Ferrari heimsmeistarar bílsmiða

Räikkönen og Massa á leið til tvöfalds sigurs í Spa …
Räikkönen og Massa á leið til tvöfalds sigurs í Spa sem færir Ferrari heimsmeistaratitil bílsmiða. ap

Að öllu óbreyttu hefur Ferrariliðið unnið í dag heimsmeistaratitil bílsmiða með tvöföldum sigri í belgíska kappakstrinum. Hið eina sem getur komið í veg fyrir það er að McLaren áfrýji útskúfun sinni úr keppninni í ár og vinni hana.

Formlega telst Ferrari ekki hafa unnið heimsmeistaratitilinn meðan McLaren hefur frest til að áfrýja refsingu sinni vegna njósnamálsins.

Óljóst er á þessu stigi hvort liðið áfrýjar, en Ron Dennis liðsstjóri hefur þó lýst því hér í Spa-Francorchamps ítrekað við blaðamenn, að hann hafi lítinn áhuga á að standa í því vafstri. Segir hann áfrýjun og hugsanlegt dómsmál í framhaldi af henni fyrir almennum dómstólum gæti tekið minnst tvö ár.

Dennis segist vilja loka á njósnamálið svo íþróttakeppnin í formúlu-1 verði aftur aðalatriðið í fréttum fjölmiðla. Talið er að slík "lokun" standi og falli með því að Ferrariliðið hætti málaferlum sínum vegna njósnamálsins á Ítalíu og í Englandi. Meðal þeirra sem birt hefur verið vitnastefna í þeim málum eru Dennis og nokkrir forsvarsmenn McLaren.

Ferrari hefur hlotið 161 stig í keppni bílsmiða og með sín 90 stig fyrir lokamótin þrjú á BMW ekki lengur möguleika á að ná Ferrari að stigum. Munar 72 stigum á liðunum en að hámarki getur lið unnið 54 í mótunum sem eftir eru.

Staðan í stigakeppni ökuþóra og stigakeppni bílsmiða

Í stigatöflu formúluvefja mbl.is yfir keppni bílsmiða er enn að finna stig McLaren en liðinu hefur verið vísað úr henni. Verður leiðrétting töflunnar að bíða, en stig annarra liða breytast ekki við að strika stig McLaren. Fá liðin aðeins stig fyrir það sæti sem bílar þeirra hafna í kappakstrinum nú og næstu mótum, en færast ekki upp við útreikning. Að því leyti hefur árangur ökuþóra McLaren áfram áhrif á keppni bílsmiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert