Hamilton vill ekki titil sem vinnst í dómssal

Hamilton segist ekki vilja fá með dómi titilinn sem Räikkönen …
Hamilton segist ekki vilja fá með dómi titilinn sem Räikkönen vann. ap

Lewis Hamilton hjá McLaren segist vilja vinna heimsmeistaratitil ökuþóra á kappakstursbrautinni, ekki mörgum vikum seinna í dómssal. Hamilton var með drjúga forystu fyrir tvö síðustu mót ársins en mistök í þeim urðu til þess að vonir hans um að verða yngsti ökuþór sögunnar gufuðu upp.

„Það væri rangt, ég vil vinna titilinn á brautinni. Maður vill gera það með glans, með sigri í kappakstri, helst eftir keppni um forystu meðan á honum stendur. Að vera færður upp eftir að einhverjum hefur verið vísað úr keppni er ekki sú aðferð sem ég kæri mig um að vinna titilinn með,“ sagði Hamilton í Sao Paulo í Brasilíu í gær.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari varð meistari, hlaut einu stigi meira en Hamilton og liðsfélagi hans Fernando Alonso. Hamilton lauk kappakstrinum í Sao Paulo á sunnudag í sjöunda sæti eftir akstursmistök og tímabundna bilun í gírkassa en við hana féll hann niður í 18. sæti.

Á gleði Räikkönen skyggði rannsókn á meintri notkun ólöglegs eldsneytis af hálfu þriggja ökuþóra sem á undan Hamilton urðu. Niðurstaða dómara var að aðhafast ekkert þótt eldsneytið væri of kalt vegna ónákvæmni í keppnisreglum um hvaða viðmiðanir skyldu gilda.

McLarenliðið ákvað að áfrýja niðurstöðu dómaranna að refsa ekki Nico Rosberg hjá Williams og BMW-þórunum Nick Heidfeld og Robert Kubica. Markmið liðsins með því er að fá Hamilton færðan upp og þar með nógu mörg stig til að verða heimsmeistari í stað Räikkönens.

Nýliðinn sagði að slíkan titill yrði óþægilegt að bera. „Það væri skrítið eftir frábæra frammistöðu Kimi í tveimur síðustu mótunum. Hann vann titilinn í gær og að það væri grimmt að taka hann af honum, og líklega ekki gott fyrir íþróttina,“ sagði Hamilton.

Fyrir lokamótið var hann fjórum stigum á undan Alonso og sjö stigum á undan Räikkönen. Á þeim Rïkkönen munaði 17 stigum eftir japanska kappaksturinn, þegar aðeins tvö mót voru eftir. Þau vann Räikkönen og þar með 20 stig en Hamilton fékk aðeins tvö stig út úr þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert