Alonso sagður laus allra mála hjá McLaren

Alonso var vel fagnað í heimabæ hans, Oviedo á Spáni, …
Alonso var vel fagnað í heimabæ hans, Oviedo á Spáni, sl. laugardag. ap

Fernando Alonso hefur náð samkomulagi við stjórnendur McLarenliðsins um að losna undan samningum við það, að því er kemur fram í frétt sem verið var að birta á fréttavef spænska blaðsins El Mundo.

Í fréttinni segir að Alonso hafi sjálfur staðfest niðurstöðuna, en hann gerði í árslok 2005 samning til þriggja ára við McLaren. Hann átti því tvö ár eftir af samningnum, en ekki hefur farið dult að honum hefur mislíkað vistin hjá liðinu.

„Fernando verður ekki lengur hjá McLaren“ hefur blaðið Diario As eftir umboðsmanni Alonso, Luis Garcia Abad. „Ég get staðfest það, honum er frjálst að keppa fyrir annað lið á næsta ári,“ bætir hann við.

Talsmaður McLaren vill ekki staðfesta fregnirnar, en búist er við tilkynningu frá liðinu um hver fylli hið lausa sæti á næstu klukkustundum eða dögum.

Spænskir fjölmiðlar herma að Alonso þurfi ekki að borga McLaren neitt fyrir samningsslitin; umboðsmanni hans og lögfræðingum hafi tekist að ná slíkri niðurstöðu eftir þriggja daga samningaviðræður sem fram fóru í höfuðstöðvum McLaren í Englandi.

Óljóst er hvert Alonso stefnir en hann hefur undanfarið verið orðaður við fjölda liða; Toyota, Renault, Williams og jafnvel Red Bull.

Alonso er sagður hafa náð samkomulagi um að losna frá …
Alonso er sagður hafa náð samkomulagi um að losna frá McLaren. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert