Brawn þarfnaðist ögruninnar sem fylgir liðsstjórn hjá Honda

Brawn skoðaði sig um í verksmiðju Honda í gær.
Brawn skoðaði sig um í verksmiðju Honda í gær. mbl.is/hondaf1

Ross Brawn segist hafa þurft á þeirri áskorun að halda sem felst í því að taka við liðsstjórn hjá Honda. Að stýra því í fremstu röð sé meiri ögrun en að snúa aftur til starfa hjá Ferrari. Brawn tekur til starfa hjá Honda eftir hálfan mánuð.

„Sú staðreynd að engin krísa er hjá Ferrari gerði það ekki eins spennandi að fara þangað. Liðið hefur staðið sig vel og mun gera það áfram þar sem skipulagið býður upp á það. Hlutskipti mitt verður að reyna að sigrast á þeim,“ segir Brawn nú.

Hann var lykilmaður hjá Ferrari frá 1996 þar til hann tók sér frí frá störfum í byrjun ársins. Í tæknistjóratíð hans varð Ferrari sex sinnum heimsmeistari bílsmiða, eða 1999-2004.

„Eins árs fjarvera gerði mér kleift að rifja upp hvað ég nýt mest við kappakstur. Fríið var dásamlegt og tilfinningin var sú að það væri ekki nógu mikil áskorun í því fólgin að snúa aftur til Ferrari,“ segir Brawn.

Hann segir persónulegar ástæður líka fyrir ákvörðun sinni. Í fríinu hafi hann dvalist í heimalandi sínu, Englandi, í stað Ítalíu og kynnst fjölskyldu sinni á ný. „Það hefði þurft mjög sérstakar kringumstæður til að ég færi aftur til Ferrari,“ segir hann.

Brawn upplýsir að hann fái ekki föst laun hjá Honda, heldur verði kaupið árangurstengt. Hann skoðaði sig um í bílsmiðju liðsins í fyrsta sinn í gær en undanfarna mánuði hefur Honda stóreflt hönnunar- og tæknisveit sína með miklum mannaráðningum.

Nick Fry, sem verið hefur liðsstjóri undanfarin ár, segist hafa elt Brawn eins og „grimmur hundur“ undanfarna mánuði. Fry víkur fyrir honum en verður rekstrarstjóri liðsins.

Fry (t.h.) segist hafa ólmast sem óður hundur í Brawn …
Fry (t.h.) segist hafa ólmast sem óður hundur í Brawn undanfarna mánuði til að fá hann til Honda. mbl.is/hondaf1
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert