FIA takmarkar notkun vindganga á næsta ári

Sauberbíll í fullri stærð í vindgöngum sem nú tilheyra BMW-liðinu.
Sauberbíll í fullri stærð í vindgöngum sem nú tilheyra BMW-liðinu.

Alþjóða akstursíþróttasambandið samþykkti í dag margs konar ráðstafanir sem ætlað er að draga enn frekar úr tilkostnaði formúluliðanna á næsta ári.

Meðal annars ákvað íþróttaráð FIA, að skerða möguleika liðanna til bílþróunar með því að takmarka í fyrsta sinn tíma sem þau mega nota vindgöng sín.

Í fyrsta lagi mega liðin aðeins nota ein vindgöng þótt þau ráði yfir fleiri slíkum. Má aðeins nota þau í 15 lotur á átta stunda degi, og aðeins fimm daga í viku.

Þá verður venjulegur loftþrýstingur að vera í göngunum þegar þau eru í notkun, þ.e. sá sami og utanhúss. Ennfremur má vindhraði í þeim í mesta lagi vera 50 metrar á sekúndu. Þá má ekki prófa bíla eða hluta þeirra í stærra líkani en sem nemur 60% af raunstærð og aldrei meira en eitt módel í einu.

Þá verður alveg tekið fyrir æfingar á flugbrautum og öðrum brautum til prófunar á beinlínuhraða og skilvirkni loftafls. Æfingar geta formúluliðin einungis stundað á brautum sem njóta viðurkenningar FIA.

Til að koma í veg fyrir að keppnisliðin svari takmörkun á notkun vindganga með því að flytja tæknimenn sína í rándýr tölvuver til að leita svara og lausna með hjálp reiknilegrar straumfræði (CFD) samþykkti FIA að takmarka fjölda sem að slíkri vinnu megi vinna. Fjöldi þeirra verður ákveðin á síðari stigum.

Auk þessa verða prófanir á grindum og hermum hvers konar takmarkaðar, einnig hönnun, framleiðsla, settar verða takmarkandi reglur varðandi fjöðrunarbúnað og bremsur, vökvakerfi, yfirbyggingu, þyngdardreifingu, brautaræfingar og fjölda starfsmanna keppnisliða á mótum.

Frekari útlistun á samþykktum þessum verða kynntar liðsstjórum keppnisliðanna 11. janúar nk. og ítarlegar reglur lagðar fyrir íþróttaráð FIA í vor.

Loks ákvað FIA í dag, að allar smíðaforsendur mótora í keppnisbílum á árabilinu 2008-2017 verði þær sömu og í mótorum sem í notkun verða 31. mars nk.

Fyrirmenni í vindgöngum Hondaliðsins við vígslu þeirra í bílsmiðju liðsins …
Fyrirmenni í vindgöngum Hondaliðsins við vígslu þeirra í bílsmiðju liðsins í Brackley. mbl.is/hondaf1
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert