Gallalaust hjá Massa - Räikkönen efstur ökuþóra

Massa komst í fyrsta sinn í mark í ár og …
Massa komst í fyrsta sinn í mark í ár og vann öruggan sigur. ap

Felipe Massa hjá Ferrari ók sem meistari væri og vann öruggan sigur í kappakstrinum í Barein sem var að ljúka í þessu. Félagi hans Kimi Räikkönen varð annar og þriðji Robert Kubica á BMW sem hóf keppni á ráspól en tapaði forystunni til Massa á fyrstu metrunum.

Talsvert var um stöðuslag á fyrstu tveimur hringjum kappakstursins en eftir það breyttist röðin nær ekkert, ef frá er talinn framúrakstur Räikkönen er tók annað sætið af Kubica á þriðja hring. Heimsmeistarinn komst samt aldrei nógu nálægt Massa til að ógna honum í fyrsta sæti.

Massa þótti mistækur í fyrstu tveimur mótum ársins en ók alveg gallalaust í dag og kláraði sinn fyrsta kappakstur með góðum og öruggum sigri.

Þótt Kubica stæði ef til vill undir væntingum kom BMW-liðið nokkuð sterkt frá mótinu því Nick Heidfeld varð fjórði. Fyrir vikið hefur BMW tekið forystu í stigakeppni bílsmiða, í fyrsta sinn í sögu liðsins. Er það með 30 stig, einu á undan Ferrari og tveimur á undan McLaren.

Heikki Kovalainen hjá McLaren varð fimmti og setti hraðasta hring mótsins. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton klúðraði ræsingunni. Féll úr þriðja sæti í það tíunda og keyrði síðan klaufalega aftan á gamla liðsfélaga sinn, Fernando Alonso. Braut framvæng sinn og varð að keyra beint inn að bílskúr til að fá nýja trjónu. Endaði hann í 13. sæti. Við ákeyrsluna brotnaði einnig hluti úr afturvæng Alonso en heimsmeistarinn fyrrverandi gat haldið áfram akstri.

Kovalainen vann sig fram úr landa sínum Räikkönen í gegnum fyrstu tvær beygjur en varð síðan að láta í minnipoka síðar á hringnum. Akstursmistök kostuðu hann síðan fjórða sætið á þriðja hring er hann fór full vítt í beygju. Heidfeld hélt aksturslínu og var á nógri siglingu til að skjótast inn fyrir og bruna fram úr.   

Það voru fleiri sem rákust saman en Hamilton og Alonso. Jenson Button hjá Honda, Adrian Sutil hjá Force India og David Coulthard hjá Red Bull urðu allir að fara inn og fá nýja framvængi eftir  samstuðs í hamagangi á fyrsta hring.

Fjöðrunin brotnaði þá hjá Sebastian Vettel á Toro Rosso svo hann féll úr leik.  Nelson Piquet snarsneri á öðrum hring og féll niður um mörg sæti. Endurheimti mörg þeirra með góðum tilþrifum en varð síðan að hætta keppni vegna gírkassabilunar.

Jarno Trulli hjá Toyota átti góðan dag og kláraði í sjötta sæti. Mark Webber hjá Red Bull vann sig fram úr Nico rosberg hjá Williams í þjónustustoppi, en þeir urðu í neðstu tveimur stigasætunum.

Úrslit kappakstursins í Barein

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Räikkönen (t.h.) vinnur sig snyrtilega fram úr Kubica.
Räikkönen (t.h.) vinnur sig snyrtilega fram úr Kubica. ap
Hamilton varð að bíta í það súra epli að láta …
Hamilton varð að bíta í það súra epli að láta Massa hringa sig. ap
Massa byggði fljótt up forskot svo honum varð aldrei ógnað …
Massa byggði fljótt up forskot svo honum varð aldrei ógnað í Barein. Hér ljúka keppendur öðrum hring. ap
Liðsmenn Ferrari fagna Massa að marki.
Liðsmenn Ferrari fagna Massa að marki. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert